149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er mjög undrandi á þeirri hörku sem felst í afstöðu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Ég skil vel þá tvo flokka sem hafa ekki nein mál ofar á sinni málefnaskrá en aðild að Evrópusambandinu. Þeir tveir flokkar lýstu því að þeir myndu styðja þetta mál áður en það var lagt fram á Alþingi þannig að þeir lýstu yfir stuðningi við málið óséð, en harkan af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna er mér undrunarefni. Ég verð að viðurkenna það. Það er alveg sama hvaða málefnalegu sjónarmið eru tekin upp og rædd í þingsal, þau eru ekki virt viðlits, þau þykja ekki tilefni til neinnar skoðunar.

Hæstv. utanríkisráðherra kom hingað fyrir skemmstu og sú heimsókn var vægast sagt hin sérkennilegasta. Hæstv. ráðherra kom að því er virtist algjörlega óundirbúinn og tómhentur varðandi þær spurningar sem voru bornar upp við hann.

Áfram skal haldið að virða vettergis þau sjónarmið sem hér er teflt fram með málefnalegum hætti. Maður hefði ekki átt von á þessu, ég verð að viðurkenna það, en sú harka sem hér birtist með einum og öðrum hætti er öllum landsmönnum auðsæ.