149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einmitt hugsi yfir þessu líka. Meiri hluti þjóðarinnar er á móti málinu en samt á að troða því ofan í hálsmálið á henni. Við stöndum hér nótt og dag og tölum á móti málinu vegna þess að ekki er á okkur hlustað og við fáum engin svör. Við fáum engar vísbendingar um að menn ætli að víkja af þessari leið. Ég er búinn að segja áður að ég dáist að og þykir vænt um hvað við höfum fengið mikla hvatningu í gegnum alls konar miðla og fólk er hér á pöllunum, jafnvel næturlangt, til að fylgjast með umræðunni. Satt að segja hefði ég haldið að við værum búnir að drepa af okkur meiri hluta þjóðarinnar í þessu andófi sem ég vil kalla svo.

Það var spurt um það á einni útvarpsstöðinni hvaða hug menn bæru til þessa gjörnings sem við erum þátttakendur í. Og viti menn, það eru jafn stórir hópar með og á móti. Þetta kom mér á óvart vegna þess að fjölmiðlar hafa verið mjög uppteknir við það undanfarna daga, reyndar ekki á málefnalegum forsendum, að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að við séum öll fávitar, að við vitum ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað við erum að gera og séum bara að verja einhverja ímyndaða hagsmuni sem ég get ekki ímyndað mér hverjir eru aðrir en hagsmunir þjóðarinnar. Eftir allt þetta gjörningaveður sem hefur dunið á finnst samt helmingi þeirra sem voru spurðir réttlætanlegt að við séum hér dögum og nóttum saman.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þessa afstöðu þjóðarinnar til bæði pakkans og (Forseti hringir.) þeirra meðala sem hér hafa verið notuð og hvort hann telji einhver líkindi á því að ríkisstjórnin láti sér segjast.