149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi vekja athygli á því að þær tvær kannanir sem hér hefur verið vísað til, annars vegar könnun sem ég vísaði til, könnun fyrirtækisins MMR sem birtist í Bændablaðinu fyrir skemmstu, og könnunin á útvarpsstöðinni, eru algjörlega ósambærilegar að gæðum. Úrtakið í könnun útvarpsstöðvarinnar er sjálfvalið og slíkt úrtak er náttúrlega ekki viðurkennt í heimi vísindanna og alls ekki þeirra vísinda sem fjalla um þessi mál. Ég mun halda mig við það, þangað til að önnur a.m.k. jafn góð könnun kemur fram, að mark sé takandi á þeirri niðurstöðu frá MMR að um 62% þjóðarinnar séu andvíg þessum þriðja orkupakka.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni og fleiri hv. þingmönnum úr þingliði Miðflokksins, sem hafa lýst því hvaða skilaboð þeim berast daga og nætur frá fólki víðs vegar að um stuðning við okkar málflutning, að þessi skilaboð eru mjög skýr, líka þegar farið er út á meðal fólks. Ég el enn þá von í brjósti, herra forseti, að ríkisstjórnarflokkarnir sjái að sér. Það þarf ekki að vera neinum til minnkunar að fresta þessu máli ósköp einfaldlega í ljósi þess að mörgum spurningum er ósvarað. Frétt dagsins um hið erlenda fyrirtæki sem áformar að leggja hingað sæstreng setur alveg nýjan vinkil inn í málið og það væri fullkomlega óverjandi að samþykkja það að öllum þessum spurningum ósvöruðum.