149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Markmið Evrópusambandsins er býsna skýrt í orkumálum, þ.e. að ná betur utan um heildarmyndina, reyna að veita öllum íbúum svæðisins tækifæri á að geta keypt hreina umhverfisvæna orku, minnka notkun á jarðefnaeldsneyti o.s.frv. Allt er þetta ljóst. Og það er vitanlega líka ljóst og séð, þarf ekki annað en fylgjast með yfirlýsingum nokkurra ráðamanna hjá Evrópusambandinu, að þeir telja mjög mikilvægt að auka miðstýringuna, ná betur utan um málið í heild. Ef ég man rétt var meira að segja vitnað í þessum stól hér, ekki fyrir svo löngu síðan, í að orkumálastjórinn, sem á að hafa veitt þessum fyrirvara Íslands blessun sína, hefði sagt að það þyrfti að ná betri tökum m.a. á því hvernig orkumarkaðurinn væri skattlagður, tekjuöflunin og slíkt þyrfti að vera undir meiri stjórn miðstýringarinnar.

Það er hins vegar mjög áhugavert, af því að hv. þingmaður byrjaði að fjalla um að við þingmenn höfum ekki fengið neina kynningu á þessu, að ég beindi ákveðnum spurningum til utanríkisráðuneytisins varðandi orkupakka fjögur og fimm. Þar er m.a. spurt: Hver eru helstu breytingar í fjórða orkupakkanum? Hvaða áhrif hafa þær á íslenskan raforkumarkað? Það er ekkert svar. Það er ekki neitt, það er bara rakin málsmeðferðin sem er svo sem ágætt. Síðan er sagt: Jú, sérstakur starfshópur hefur verið settur af stað um hagsmunagæslu og samráð varðandi innleiðingu fjórðu orkupakkans. Allt er þetta örugglega samkvæmt fyrir framákveðnukerfi. En nú er staðan allt önnur, við þurfum að sjá þetta.