149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við þessu er í rauninni spurningin sem hv. þingmaður velti upp áðan með færibandið. Það er einfaldlega þannig að ef menn nýta ekki í það minnsta möguleika sem þeir hafa til að ná fram áhrifum með breytingum, sem ekki tókst í viðræðunum varðandi orkupakka þrjú, þá verða þeir að stoppa færibandið. En það er því miður að skilja af t.d. svari hæstv. forsætisráðherra í dag við fyrirspurn hv. þingmanns að færibandið verði ekki stoppað, það malli áfram. Þar af leiðandi mun Alþingi lenda í þeirri stöðu að vera búið að innleiða svo glæsilega að eftir því er tekið orkupakka þrjú, væntanlega, gangi vilji stjórnvalda eftir, og þá verður erfitt að malda í móinn þegar menn kafa loksins ofan í fjórða orkupakkann.

Það sem er hins vegar algjörlega galið, og mér fannst mjög vont að heyra hæstv. forsætisráðherra segja í ræðustól, er að neita að horfast í augu við það að hægt er að átta sig á vandamálunum sem eru hugsanlega í orkupakka fjögur í dag. Það þarf ekki að bíða eftir öllu ferlinu. Það er alveg hægt að fara í sjálfstæða athugun og láta menn skoða hvað er þarna á ferðinni til að undirbúa þá færibandið ef menn vilja ekki grípa inn í.

Það er stórhættulegt að líta á þessar innleiðingar allar eins og þær séu í boxum, maður taki bara eina skeið eða einn bita af þessu í einu því á endanum er búið að taka það mörg skref að ekki verður aftur snúið. Þegar búið er að innleiða orkupakka þrjú, ef af því verður, þá verður ekki aftur snúið með það og þá er búið að auka þrýstinginn á að klára númer fjögur.

Það að forsætisráðherra Vinstri grænna skuli lýsa því yfir að það sé bara sjálfsagt að það komi á færibandi að markaðsvæða orkuna enn þá frekar, gera náttúruauðlindirnar að markaðsvöru, vöru sem hægt er að flytja og selja jafnvel yfir landamæri, er hreint með ólíkindum.