149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ný gögn hafa aldeilis komið fram í málinu. Segja má — og ef það er rétt tala, ég hef ekki gáð að því sérstaklega, en einhvers staðar er sagt að fjórði orkupakkinn sé um 1.000 blaðsíður en það getur vel verið að hann sé eitthvað minni, það breytir ekki öllu — að nokkurt magn af efni sé komið í ljós, sem er nýtt, og full ástæða til að skoða.

Það er ekki oft, ég held að óhætt sé að segja það, sem við búum við það á Alþingi að geta séð inn í framtíðina, að geta vitað hvað bíður okkar, ekki bara spáð fyrir um hvað verður, heldur séð hvað verður. Það er það sem við getum gert núna varðandi þennan fjórða orkupakka sem búið er að ganga frá og samþykkja. Þetta box er tilbúið sem bíður okkar. En í staðinn fyrir að bíða í 18, 24, 36 mánuði eftir því að sjá hvað verður og innleiða einhver ósköpin af gerðum á meðan, þá getum við sagt: Heyrðu, við ætlum að skoða þetta betur, það er ekkert sem bannar okkur það. Og ef þið viljið ekki vera róleg yfir því verðum við að fara með þetta aftur í sameiginlegu EES-nefndina, en við verðum að geta borið saman og séð heildaráhrifin.

Það er nýtt og það er eitthvað sem mér finnst ekki óeðlilegt að bregðast við. Það er ekki óeðlilegt að játa það og segja: Þetta vissum við ekki þegar við samþykktum að fara með þetta mál inn í þingið. En nú er komin upp ný staða og við verðum að fá tækifæri til að skoða hana betur.

Varðandi fyrri spurninguna um orð hæstv. forsætisráðherra í dag — já, það voru gríðarleg vonbrigði að heyra forsætisráðherra segja bara: Ja, þetta verður bara ferlið, þetta fer í þessa síu, allt þetta ferli þar sem spjallað er um þetta og reynt að fá undanþágur o.s.frv. En skilaboðin voru þessi: Það er ekki ástæða til að fara að skoða framtíðina þótt hún liggi opin fyrir okkur.

Þetta eru gríðarleg vonbrigði vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur núna ákveðið tækifæri til að sjá hvað bíður okkar, t.d. frekari markaðsvæðing raforkunnar.