149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna skýrt og sannfærandi hjá hv. þingmanni, þær tilvitnanir sem hann las upp. Maður skyldi ætla að þær kölluðu á viðbrögð af hálfu stjórnvalda sem hafa þó engin verið hvað þessa þætti varðar. Þvert á móti leitast menn áfram við að fresta vandanum, fresta því að taka afstöðu til spurningarinnar um hvort þetta standist stjórnarskrá og ganga með því í rauninni þvert á það sem lagt er til í þessu áliti.

Það er hins vegar annað sem ég hefði áhuga á að spyrja hv. þingmann um, tvö atriði sem hv. þingmaður kom inn á. Annars vegar þetta samspil ACER og Orkustofnunar. Nú liggur fyrir og er á dagskrá þingsins frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um að breyta eðli Orkustofnunar. Það hefur verið kynnt á þeim forsendum að það snúist um að auka sjálfstæði stofnunarinnar en gengur í raun út á að skera hana frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum, þinginu og ráðherrum, og látið að því liggja að það snúist um að auka sjálfstæði þessarar stofnunar.

Það er mjög í tísku nú til dags að stofnanir eigi að vera óháðar kjósendum, almenningi. Það er hluti af þessari kerfisvæðingu. Það sé í rauninni ekki almennings að taka ákvarðanir um hlutina heldur einhverra sérfræðinga. Er ekki vandinn sá að tilgangurinn er ekki að gera stofnunina sjálfstæða heldur að færa hana undir ACER svoleiðis að hún geti orðið svokallaður landsreglari og fylgst með fyrir hönd ACER á Íslandi? (Forseti hringir.) Ég næ ekki að spyrja seinni spurningarinnar. Það verður að bíða þar til á eftir.