149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:19]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi nú ekki að hv. þingmaður hafi gert mér grikk þarna undir lokin en hann kom með mjög áhugaverðan punkt sem þarf að ræða nánar en ég næ ekki að fara yfir í þessu stutta andsvari. Það er hvernig orkupakkinn og innleiðing hans spilar saman við samkeppnisreglurnar og ýtir undir að þeim sé beitt í þágu orkustefnunnar. Það er önnur saga sem er efni í ræðu.

Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í var umfjöllun hans um hættuna á skaðabótakröfu vegna rangrar innleiðingar þriðja orkupakkans eða skaðabótakröfu á þeim forsendum að stjórnvöld væru ekki að framfylgja orkupakkanum í samræmi við það sem lagt er upp með. Þessar áhyggjur fengu alveg nýtt líf, ef svo má segja, og aukið vægi í gær þegar breska blaðið Sunday Times birti frétt um áform um lagningu sæstrengs milli Íslands og Norður-Englands.

Okkur hafði verið sagt að samningsbrotamál og hugsanlegar skaðabætur væru ekkert áhyggjuefni vegna þess að það væri langt í lagningu sæstrengs ef hann einhvern tímann kæmi. Þá myndi Alþingi ræða málið. Við þekkjum þessa umræðu alla. En þarna birtist frétt í bresku stórblaði þar sem málið er kynnt á þann hátt að í rauninni sé bara beðið eftir einhverjum stimpli eða skilgreiningu frá breska viðskiptaráðherranum og þá sé allt til reiðu að hefja framleiðslu sæstrengs og tengingu milli landanna. Er þetta ekki augljóst dæmi um aðila sem gætu látið reyna á þetta ákvæði?