149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Eins og ég kom að í minni ræðu fjalla lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar einmitt um bótaskylduna, á bls. 35 í álitinu, og komast sjálfir að þeirri niðurstöðu í stuttu máli að lagasetning sem brýtur gegn stjórnarskrá og innleiðing sem brýtur gegn regluverki Evrópusambandsins getur bakað ríkinu bótaskyldu. Það er í raun tvenns konar bótaskylda, þ.e. gagnvart aðilum sem byggja rétt sinn á evrópska regluverkinu sem við erum búin að innleiða en förum svo ekki eftir eins og virðist vera stefna stjórnvalda, og síðan geta lög sem brjóta gegn stjórnarskrá Íslands, eins og þeir félagar koma að, einnig bakað ríkinu bótaskyldu á öðrum grunni.

Ég talaði um samkeppnisreglur Evrópusambandsins. Það eru mörg önnur regluverk í Evrópusambandinu, ýmis önnur regluverk, og þau þarf að skoða í samhengi. Einhver lítil markmið og sérreglur sem gilda kannski á litlum svæðum og fámennum svæðum og allar viðbárur og undanþágur verða skýrð þröngt ef þær fari í bága við meginmarkmið reglna Evrópusambandsins, eins og t.d. reglna þess um samkeppni, að það eigi ekki að hefta samkeppni og það eigi að dreifa eignaraðild, það megi ekki vera einn aðili ráðandi á markaði o.s.frv. Ef eitthvað brýtur í bága við þetta verður skýrt eftir meginmarkmiðunum. Þannig getur eitt regluverk raunverulega haft áhrif á annað.