149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Þetta eru stórar spurningar sem þingmaðurinn veltir upp í sínu máli. Mig langar að spyrja hann og kannski er það stóra spurningin: Hvernig er best að leysa þennan vafa, þennan stjórnskipulega vafa sem þingmaðurinn fór yfir? Hvaða leiðir höfum við til þess? Það er svolítið sérstakt að segja það og viðurkenna í rauninni að við viljum hraða því að innleiða þetta mál, við ætlum að fresta vandamálinu, fresta því að leysa það sem mestu skiptir í rauninni, ýta því á undan okkur eins lengi og við mögulega getum. Hvernig er best að leysa þennan stjórnskipulega vafa?

Í öðru lagi sáum við fréttir í dag um að það eru breskir aðilar sem eru að undirbúa lagningu sæstrengs. Segjum sem svo að þeim takist að búa til streng og vilji leggja hann, þeir reisa orkuver, t.d. vindorkuver, á Íslandi og vilja bara flytja út sína orku til Bretlandseyja og mögulega þaðan áfram til Evrópu. Nú vitum við ekki hvernig í orkumálum verður háttað í Bretlandi nákvæmlega eftir útgöngu þeirra, en segjum sem svo að þetta verði allt eitt system. Þá getur íslenska ríkið ekki staðið í vegi fyrir því að þessi strengur sé lagður nema með því að skapa sér einhvers konar bótaskyldu. Má ekki skilja varnaðarorðin þannig, það er það sem ég er að reyna að koma út úr mér, að eitt dæmi um slíka bótaskyldu gæti verið að einkaaðili kemur sér upp streng eða vill gera það, íslenska ríkið reynir að koma í veg fyrir það og skapar sér þannig einhvers konar bótaskyldu. Það var það sem ég var að reyna að koma út úr mér.