149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það væri áhugavert að heyra hv. þingmann, hvort sem það rúmast í andsvari eða ræðu síðar, lýsa aðeins muninum á íslenskri reglugerð settri hér til heimabrúks og lögum Evrópusambandsins þegar við erum hugsanlega komin fyrir EFTA-dómstólinn. Hvort hefur meira gildi?

Mig langar líka að spyrja þingmanninn út í annað. Nú erum við að fjalla um þetta stóra mál sem er orkupakki þrjú. Það er ákveðin stjórnskipulegur vafi. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það. Veit hv. þingmaður til þess að slíkur vafi kunni að vera líka uppi í orkupakka fjögur sem er nú kominn fram í ljósið? Ef ekki er, hvort það gæti verið snjallt fyrir fylgjendur þessa máls, sér í lagi ráðherrana tvo, að láta skoða alvarlega og vera ekkert að pukrast neitt með það hver sameiginleg áhrif orkupakka þrjú og fjögur kunni að vera þegar kemur að stjórnarskránni, framsali valds og úrskurðar um það hvort við séum að brjóta stjórnarskrána með einhverjum hætti. Ekki nema ætlunin sé hreinlega bara að fresta „vandamálinu“ um alla eilífð í von um að það þurfi ekki að taka á því, sem samkvæmt fréttum í dag er ekki mjög líklegt. Það er líklegt að það þurfi að taka á þessu máli fyrr en seinna.

Aðalspurningin er sem sagt hvort ekki sé ástæða til að reyna að skoða þessi stjórnskipulegu álitaefni í einni heild þegar við vitum að það er meira að koma inn á borðið hjá okkur.