149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma stuttlega inn á aðkomu Alþingis að lagningu sæstrengs, nálgast það svolítið út frá því sjónarmiði að sporin hræða. Það er ekki nema tíu ára gamalt dæmið sem við eigum um algjöran viðsnúning á sjónarmiðum þeirra sem háðu kosningabaráttu í aðdraganda alþingiskosninga vorið 2009. Nú er ég að vísa til Vinstri grænna sem þá héldu því fram staffírugir að ekki kæmi til greina að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þeir myndu ekki taka þátt í ríkisstjórn að afloknum kosningum sem hefði slíkt á dagskrá.

Ef ég man rétt voru það þrjár vikur sem liðu frá því að ríkisstjórnin var mynduð og þangað til Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafði sent bréf til Brussel þar sem þess var óskað að aðlögunarviðræður Íslands við Evrópusambandið hæfust. Þrjár vikur. Í máli eins og þessu virðast allir stjórnarflokkarnir hafa tekið U-beygju frá því fyrir kosningar haustið 2017 þangað til núna 2019. Það eykur ekki tiltrú manns á því að líklegt sé að fyrirvarinn haldi ef mynduð verður á einhverjum tímapunkti ríkisstjórn þeirra flokka sem helst eru áfram um þetta, þeirra sem eru stundum kallaðar samfylkingarflokkarnir í stjórnarandstöðunni, Samfylkingin, Viðreisn og Píratar saman. — Þó er rétt að halda því til haga um málflutning Pírata að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lýsti miklum efasemdum um þá vegferð sem ég held að sé óhætt að segja að hið minnsta Samfylkingin og Viðreisn séu áhugasöm um að leggja í, sem er lagning sæstrengs og því fyrr því betra. Og varðandi þá ríkisstjórnarflokka sem nú eru við völd þá var svo sem ekki mikið rætt um þeirra upplegg um þessi mál, en það var vitað innan úr þingflokkum þeirra að þar væri mjög takmarkaður stuðningur, í besta falli, við innleiðingu þriðja orkupakkans.

Þegar maður skoðar þetta allt í samhengi við þann þrýsting sem Evrópusambandið getur beitt, ætli það sér það, og að hér inni á þingi eru þingflokkar sem eru verulega áfram um að nálgast Evrópusambandið meira en orðið er og auðvitað líka áhugasamir um tengingu landsins með sæstreng, þá er lítil hugarró í því að menn noti sem rökstuðning fyrir því að hleypa þessu öllu inn með þessum hætti að þetta sé allt í fína.

Nú erum við að gefa okkur að þessir meintu fyrirvararnir haldi, en þá er samt eftir eitt áhættuatriði sem snýr að því að hér verði tímabundið ríkisstjórn sem hleypi málinu áfram, „leysi málið“ gagnvart innleiðingarferlinu. Það er engin ástæða til að vanmeta þá áhættu og þar tek ég þetta tíu ára gamla dæmi um viðsnúning Vinstri grænna gagnvart aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þó að vissulega hafi þar alltaf fylgt ákveðnar útskýringar með þá breytir það ekki því að Vinstri grænir studdu þá aðlögunarumsókn og hún hefði aldrei gengið fram án stuðnings þeirra.

Ég ítreka að sporin hræða í þessum efnum. Jafnvel þó að fyrirvararnir haldi, sem maður telur mjög fjarlægt að verði raunin, þá er eftir þessi áhætta (Forseti hringir.) sem mun raungerast einhvern daginn að hér verði tímabundið ríkisstjórn sem er allt annarrar skoðunar en þessi meinti fyrirvari strikar út.