149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er náttúrlega eðlilegt að samfylkingarflokkarnir séu þeirrar skoðunar að það beri að hraða þessu öllu saman. Á sama tíma er mjög áhugavert að tveir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar Alþýðuflokksins sáluga hafa verið mjög skýrir í afstöðu sinni þegar kemur að orkupakkanum, þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Sighvatur Björgvinsson sem hafa verið að fjalla um þetta. Báðir hafa einmitt varað sérstaklega við því að um orkuna sé að ræða.

Ég ímynda mér að það eigi — ég ætla ekki að gera mönnum upp einhverjar skoðanir — en maður skyldi ætla að ekki væri ólíklegt í það minnsta að svipaðar hugmyndir væru um aðrar auðlindir, að þetta sneri að auðlindunum. En höldum okkur við orkuna. Þeir vara einmitt við því að það sé í raun glórulaust að fara þessa leið, að ganga þennan veg með íslensku auðlindirnar, orkuna, inn á orkumarkað Evrópusambandsins. Báðir hafa fært fyrir því alveg ágætisrök og guðfaðir EES-samningsins hefur sjálfur skilað inn áliti um þetta mál og fer þar ágætlega yfir bæði söguna og markmiðin og það að orka átti aldrei að vera hluti eða var ekki í upphafi hluti af EES-samningnum.

Þess vegna hljótum við að velta því upp hvort þetta sé einhvers konar keppni milli þessara samfylkingarflokka allra. Hver er fyrstur til eða hver getur verið meiri Evrópusambandssinni og það megi ekki truflað þá keppni. Það er reyndar stundum erfitt að greina á milli þeirra, hvor þeirra er hvað. Þarna eru þeir kannski bara að keppa um athyglina.