149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við það að forseti sé farinn að tíðka það að setja klukkuna í gang áður en ræða hefst. En hvað um það.

Ég held, frú forseti, að við þurfum einfaldlega að sætta okkur við það að með tilliti til viðhorfs okkar og hugmynda um ríkisstjórnarflokkana þurfi menn að hætta að lifa í fortíðinni því að það hefur bara sannast aftur og aftur að þetta eru meira og minna orðnir kerfisflokkar.

Það er ekkert sem bendir til þess að minnsta kosti, að þeir muni bregðast öðruvísi við á næstu stigum þessa máls en þeir gera í umræðu um þriðja orkupakkann með tilliti til fjórða orkupakkans eða breytinga sem þegar hafa verið gerðar innan Evrópusambandsins á þriðja orkupakkanum eða hluta eins og lagningar sæstrengs. Ég tala nú ekki um ef aðilar, eins og fjallað var um í Sunday Times í gær, væru búnir að höfða mál á hendur ríkinu og ríkisstjórnin stæði frammi fyrir því að þurfa að bregðast við því að eigin mati. Hvernig myndi hún þá bregðast við? Við höfum fordæmið. Hv. þingmaður nefndi það í andsvari sínu.

Við höfum fordæmi og það liggur fyrir á þessu þingi og bíður afgreiðslu. Það er mál sem varðar heilsu og hag þjóðarinnar, varðar matvælaframleiðslu, varðar undirstöðuatvinnugrein landsmanna frá landnámi. Þar kemur ríkisstjórnin fram með mál og segir: Því miður. Við vorum á því að við hefðum undanþágu en Evrópusambandið segir að við höfum það ekki. Þess vegna verðið þið þingmenn að greiða atkvæði með túlkun Evrópusambandsins.

Við getum rétt ímyndað okkur hvort það sama yrði ekki upp á teningnum hjá þessari ríkisstjórn. Ég tala nú ekki um ríkisstjórn þar sem annar eða báðir samfylkingarflokkarnir væru orðnir þátttakendur þegar kæmi að því að fullnusta kröfur um að fá að leggja sæstreng og vinna þar með að markmiði þriðja orkupakkans um samtengingu evrópska raforkukerfisins.