149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ég ætla að ræða aðeins um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og raunar einnig Bretlands og Evrópusambandsins vegna þess að að mínu mati hefur hvort tveggja heilmikið skýringargildi fyrir það mál sem við erum að fást við núna, þriðja orkupakkann.

Byrjum á Bretlandi. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Bretar hafa nú í þrjú ár verið að reyna að komast út úr Evrópusambandinu eftir að breskur almenningur í mestu fjöldaatkvæðagreiðslu sem fram hefur farið í því landi samþykkti útgöngu úr sambandinu. Við tók langt og flókið ferli sem ekki sér enn fyrir endann á. Það sem er merkilegast við þetta ferli er að það hefur allt farið fram á forsendum Evrópusambandsins sem hefur í rauninni leikið sér að Bretlandi og þvælt málin fyrir það land á hverju stigi. Bretland er ekkert smáríki, eitt af fjölmennustu ríkjum sambandsins, eitt sterkasta efnahagsveldið og langsterkasta hernaðarveldið innan sambandsins. En það er eitthvað sem embættismenn í Brussel hafa ekki haft neinar áhyggjur af og því miður hafa þeir notið fulltingis heimamanna í Bretlandi sem hafa ákveðið að skemma í raun samningsstöðu eigin lands. Það hefur verið hálfdapurlegt að fylgjast með því vegna þess að eitt og annað í þeim efnum minnir mann á hluti sem við höfum gengið í gegnum á Íslandi. Afleiðingin er sú að ekki sér enn fyrir endann á þessu ferli núna, þremur árum síðar.

Á engu stigi hefur forsætisráðherra Bretlands treyst sér til að láta Evrópusambandið standa einfaldlega frammi fyrir því að Bretar færu án sérstaks samnings, samnings á forsendum Evrópusambandsins, sem setur að sjálfsögðu þetta ríki í vonlausa samningsstöðu.

Allt er þetta afleiðing af því að Bretland var orðið flækt í net Evrópusambandsins, net sem er að miklu leyti gert úr reglugerðum. Það leiðir hugann að málinu sem við erum að fást við hér. Það viðhorf Evrópusambandsins að flækja heilu löndin í net er eitthvað sem við þurfum kannski að ræða líka á Íslandi því að nú er ekki annað að heyra á hæstv. utanríkisráðherra en að hann sé ekki alveg viss um hvort Ísland sé enn þá umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Það er alveg ljóst að Ísland sleit aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það liggur fyrir og var margítrekað fyrir sambandinu. Að vísu tók langan tíma að fá Evrópusambandið til að taka Ísland af lista yfir umsóknarríki en það hafðist í gegn. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefur efasemdir um að sambandið sé búið að sleppa af okkur takinu sem umsóknarríki hlýtur maður í fyrsta lagi að spyrja: Hvers vegna er ráðherrann ekki búinn að árétta það að við séum ekki lengur umsóknarríki? Er hann eitthvað smeykur við það? Ég veit það ekki. Ef ráðherrann telur að það kunni að vera hætta á því að Ísland sé enn þá umsóknarland um aðild að Evrópusambandinu skyldi maður ætla að það væri hlutverk hans að leiðrétta það. En bara það að þessi umræða komi upp og hæstv. utanríkisráðherra tali með þeim hætti sem hann gerir þegar fyrir liggur að Ísland er fyrir mörgum árum síðan búið að slíta aðildarviðræðum sýnir hversu hættulegt það er að teygja sig í átt að Evrópusambandinu. Þar er ekki bara gripið í litla putta heldur öll höndin tekin og reynt að hlekkja hana við festingarnar í Brussel.

Þessar sögur tvær, annars vegar um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og hins vegar Bretlands og Evrópusambandsins, ættu að vera áminning um mikilvægi þess að menn fari sér ekki að voða með innleiðingu þriðja orkupakkans því að dæmin sanna að allt slíkt er notað til þess að tjóðra lönd við sambandið og það getur reynst erfitt að sleppa þegar Evrópusambandið hefur náð taki.