149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisupprifjun hjá hv. þingmanni á Evrópusambandsaðildarviðræðuslitunum og öllu því. Það er ágætt líka að bæta við, og hv. þingmaður getur kannski staðfest það ef tími vinnst til, að það var merkilegt að horfa upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn á þessum tíma treysti sér ekki til að afgreiða málið í þinginu. Meðan hinn stjórnarflokkurinn var tilbúinn til þess gátu Sjálfstæðismenn ekki komið sér saman eða treystu sér ekki til að klára málið í sínum ranni. Fyrir vikið eru nokkrir, þrír til fjórir gamlir blaðamenn og Sjálfstæðismenn, frekar fúlir út í þetta og reyna að gera allt annað tortryggilegt.

Það er í sjálfu sér aukaatriði. Hins vegar verð ég að segja eitt. Tvö orð komu fyrir í skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninginn, ég held að það hafi verið í fyrra, þar sem hann lýsti því varðandi aðildarviðræðurnar að gert hefði verið algert hlé. Ég gerði athugasemdir við þessi orð og ráðherrann var frekar vandræðalegur og reyndi að klína því á forvera sína sem er ekki rétt. Hins vegar kannast ég alveg við að þetta hafi verið eitt af því sem var lagt til að yrði gert gagnvart Evrópusambandinu, að menn myndu gera svokallað algert hlé en sjálfsögðu var ekki léð máls á því þannig að væntanlega hefur ráðherrann bara stigið í spínatið, eins og menn sögðu gjarnan í utanríkisþjónustunni, þ.e. runnið aðeins til og orðið á í messunni. En Evrópusambandið er þannig, hv. þingmaður, og við höfum séð það á viðræðum Breta að þegar menn eru einu sinni komnir þarna inn fara þeir ekki út aftur, þeir eru bara á teinunum, innleiða og hlýða embættismönnunum, ellegar getur hlotist verra af.