149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Vonandi geta menn lært af reynslunni hvað þetta varðar. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, auðvitað hefðum við og fleiri helst viljað afgreiða þetta mál með mjög afgerandi hætti í þinginu en það var einhver feimni við það í Sjálfstæðisflokknum. Það má líka segja að hið kurteisislega orðalag sem notað var til að tilkynna Evrópusambandinu um slit á umsókninni hafi verið afleiðing af því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma höfðu miklar áhyggjur af hópi sem síðar stofnaði flokk og kallaði sig Viðreisn. Það var reynt að koma til móts við áhyggjur hv. þingmanna þess tíma.

En hvað um það, viðræðum var slitið en eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bendir á dúkka upp ískyggilegar vísbendingar eins og athugasemd í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um algjört hlé. Hvað þýðir þetta, frú forseti, algjört hlé? Er það til að undirstrika að þetta sé bara hlé, algjört hlé, eða er það til að undirstrika að hléið þýði að menn séu ekki í neinum sérstökum samskiptum í ákveðinn tíma? Það er ekki gott að segja. Við höfum ekki fengið svör við þessu frá hæstv. utanríkisráðherra en þetta er engu að síður áminning um það að í samskiptum við Evrópusambandið þurfa menn að hafa varann á og ekki meðtaka eða innleiða reglugerðir sem þeir sjá ekki fyrir hvaða áhrif muni hafa.