149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Svar hæstv. forsætisráðherra olli mér talsverðum áhyggjum. Þótt hæstv. ráðherra hafi ekki orðað það þannig sagði hún eitthvað á þá leið að þúsund reglugerðir á færibandinu þokast nær og við þurfum bara að afgreiða þær eins og venjan er á hverjum stað við línuna. En það er einmitt sérstakt áhyggjuefni með tilliti til þriðja orkupakkans í ljósi þess með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur rökstutt þá innleiðingu. Eitt er að vísa almennt í hvernig þetta gangi allt saman fyrir sig með Evrópureglugerðir en svo er annað að setja það fordæmi sérstaklega í orkumálum að vegna innleiðingar fyrstu og annarrar raforkutilskipunarinnar verðum við að innleiða þriðja orkupakkann og að við verðum að innleiða þriðja orkupakkann vegna þess að þetta sé það stórt mál í huga Evrópusambandsins að það geti sett EES-samstarfið í uppnám ef við biðjum einfaldlega um að málið sé skoðað aftur í sameiginlegu EES-nefndinni.

Þarna eru sem sagt komin mjög hættuleg fordæmi sem tvímælalaust verður beitt á íslensk stjórnvöld þegar fjórði orkupakkinn kemur á færibandinu. Þá verður mjög erfitt, a.m.k. fyrir þessa ríkisstjórn, að ætla að segja að það sama gildi ekki þá, eins og um þriðja orkupakkann, því að öllum rökstuðningi stjórnarinnar verður snúið á móti henni.