149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Allt eru þetta atriði sem menn ættu að sjálfsögðu að ræða í samhengi við þriðja orkupakkann en sérstaklega með hliðsjón af því hvað Evrópusambandið er að sækja í sig veðrið eða sækja á um aukna miðstýringu. Til að undirstrika hversu tímabært er að hafa áhyggjur af því ætla ég að leyfa mér að vitna í mjög gott viðtal við hæstv. fjármálaráðherra frá því í fyrra í endursögn Viðskiptablaðsins. Þetta er viðtal sem fór fram í Daily Telegraph og svarar í raun þessari athugasemd hv. þingmanns. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld eru sögð óhress með hve þrýstingur Evrópusambandsins sé sífellt að aukast á að hér verði teknar upp síauknar viðbótarreglur, nú síðast vegna orkumála og meðferðar matvælaeftirlits. Sagði hann stjórnvöld í Evrópusambandinu líta á sjálfstæði landsins sem sífellt meira vesen, en hann segir í viðtalinu að dýpri samþætting allra hluta innan sambandsins sé að gera Íslandi erfitt fyrir að gæta þjóðarhagsmuna sinna.“

Þetta er það sem er að gerast. Við þurfum að líta til allra þeirra atriða sem hv. þingmaður nefndi og við ættum að sjálfsögðu að vera að skoða í samhengi við umræðuna um þriðja orkupakkann með hliðsjón af þessari þróun. Svo ég nefni bara eitt af þeim dæmum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. fjórða orkupakkann, er ekki hægt að slíta umræðu um hann úr samhengi við þann þriðja í ljósi nákvæmlega þeirra hluta sem hæstv. fjármálaráðherra bendir á í viðtalinu. Þetta er allt liður í því að ganga á lagið og í rauninni að ganga á fullveldi ríkjanna sem undir sambandið heyra eða jafnvel eru aðilar að EES-samningnum.