149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir svarið varðandi ACER og samspilið þar á milli á hvaða leið við erum. Við erum að ganga inn í þann óskapnað að vera sett undir áhrif stofnunarinnar sem við höfum engin áhrif á og enga aðkomu að, menn settu hana á stofn fyrir Evrópusambandið sem við erum ekki aðilar að. Við erum óbeinir aðilar í gegnum Evrópska efnahagssvæðið þar sem búið er til annað kerfi, annað system sem á að þjóna okkur, þ.e. ESA.

Á hvaða leið erum við? Stjórnarliðið setur haldlítinn eða haldlausan fyrirvara við þessa innleiðingu og er að kíkja inn um dyrnar í orkumálum þar sem um er að ræða okkar helstu auðlind, orkuauðlindir okkar og nýting fallvatnanna, sem hefur tekið okkur áratugi, allt upp í 100 ár að virkja og koma í gagnið okkur og afkomendum okkar til góða. Og ódýra raforku fyrir alla landsmenn, sem eru nú ekki nema rétt rúm 300.000 í þessu dreifbýla landi. En við erum að taka áhættu. Við erum að taka þá áhættu að ganga þar inn með þá stóru auðlind.

Ég held að við ættum að leggjast á eitt og reyna að höggva niður hið gaddfreðna bjarg sem stjórnarliðið er búið að slá utan um þetta mál og fara þá leið sem er samningsbundin. Er ekki hv. þingmaður sammála mér í því, að fara samningsbundna leið í málinu sem er að fara með þetta aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina og fá þá undanþágu sem við eigum skilið og hún viðurkennir að við eigum að fá?