149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að gera að umtalsefni einmitt það sem hann ræddi hér sérstaklega. Það hefur komið fram í nokkrum lögfræðiálitum að með þessari innleiðingu, eins og hún er hugsuð, séum við að afsala okkur meira valdi en með nokkurri annarri gerð áður. Það segir einmitt í innleggi Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings á bls. 2, með leyfi forseta:

„Innleiðing á reglugerð ESB nr. 713/2009 í íslenskan rétt er væntanlega með setningu reglugerðar, því í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir eftirfarandi: „Innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB (um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku) kallar á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, að því er varðar sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar.““

Hvað erum við að gera þarna? Jú, við erum að færa Orkustofnun að hluta undir yfirþjóðlegt vald. Spurningin er: Hafa menn hugsað það til enda hvaða völd við erum að færa þarna í burtu?

Mér dettur nú í hug sektarákvæðin sem menn hafa talað dálítið um hér. Við erum að selja þarna í hendur stofnunar, sem heyrir beint undir Evrópusambandið, rétt til þess að sekta raforkufyrirtækin okkar ef þau haga sér ekki í samræmi við það sem ESB kærir sig um. Við erum að tala um stórar upphæðir, svo stórar að allar stjórnvaldssektir sem t.d. samkeppnisyfirvöld hafa hingað til beitt hér á Íslandi eru smáaurar í sambandi við þetta. (Forseti hringir.)

Hvað vill þingmaðurinn segja okkur akkúrat um þetta atriði?