149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég varpa fram þessum spurningum varðandi ACER-stofnunina, þessum tveimur spurningum sem ég bar upp áðan, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að að menn geri sér grein fyrir áhrifunum og framkvæmdinni sem mun verða. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að heildarmyndin sé ljós um það hvert stefnt sé. Í þeim gögnum á heimasíðu Evrópusambandsins þar sem þetta var allt birt, fjórði orkupakkinn og ég fór örlítið yfir áðan, kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„ACER mun hafa yfirumsjón yfir framtíðar svæðisbundnum einingum og þar með koma í veg fyrir hugsanleg vandamál sem gætu komið upp ef hvert ríki fyrir sig væri að stjórna sínum málum sem gæti haft neikvæðar afleiðingar á orkumarkaðinn og orkuneytendur. Þetta mun einnig hagræða framtíðarreglugerðum þar sem ACER mun nú geta gefið beint samþykki í stað þess að hvert og eitt ríki sé að samþykkja sérstaklega.“

Það er augljóslega verið að auka völdin. Ef við fengjum tíma og gætum þvælt okkur í gegnum allar þessar blaðsíður sem fylgja fjórða orkupakkanum held ég að við alþingismenn myndum alveg ráða við það sjálfir að átta okkur á því að það er ákveðin þróun í gangi. Það skiptir líklega meira máli að lagalega túlkunin sé rétt, þ.e. hvað þýðir það þegar þessi stofnun fær breytt og aukin völd? Hvað þýðir það fyrir Orkustofnun sem mun hugsanlega fá breyttar heimildir? Hvað þýðir það fyrir t.d. orkufyrirtæki á Íslandi, dreifingarfyrirtæki, eða jafnvel viðskiptavini? Allt þetta er mikilvægt að skoða heildstætt áður en menn halda áfram.