149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er í rauninni svakalegt ef það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta skuli klárað sama hvað. Það er reyndar mjög sérstakt, svo vægt til orða sé tekið, ekki síst vegna þess að í kaflanum um, með leyfi forseta, „electricity market design“, eða hönnun orkumarkaðarins, í afgreiðslu framkvæmdastjórnarinnar á fjórða orkupakkanum, kemur fram m.a. að Evrópusambandið hefur uppfært gerð 72/2009 og reglugerð 714/2009. Við erum að fjalla um þá gerð og þá reglugerð núna og eigum að fara að innleiða þær, en það er búið að breyta þeim samkvæmt þessu, það er búið að uppfæra þær.

Hvers vegna í ósköpunum er það ekki skoðað, frú forseti? Hver er þessi uppfærsla á 72/2009 og 714/2009? Hver er breytingin? Er ekki ráð að kanna það í staðinn fyrir að fara að innleiða eitthvað sem er orðið gamalt og breytist svo eftir nokkra mánuði? Hvernig væri að kanna hver þróunin í þessum gerðum er? Það kemur fram í þessum kafla að það er verið að uppfæra gerð 72/2009 og reglugerð 714/2009. Svo stendur reyndar líka að það eigi að setja nýja reglugerð um áhættuviðbúnað. Svo er það aukið hlutverk ACER.

Þetta er til, kannski ekki á prenti en er til á vefnum og hægt að sjá þar að þetta eru m.a. þær breytingar sem fjórði orkupakkinn mun hafa í för með sér.