149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, þarna er nefnilega á ferðinni mikil óvissa. Ég hjó eftir því í dag að undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir sagði hæstv. forsætisráðherra að hún vonaðist til að hingað yrði ekki lagður sæstrengur. Mér finnst það benda til þess að forsætisráðherra geri sér fyllilega grein fyrir því að það er mikil óvissa í aðferðafræði ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsætisráðherra hefði getað tryggt þetta þannig að hún þyrfti ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að hingað kæmi sæstrengur með því að fara lögformlega leið sem er sameiginlega EES-nefndin og fá varanlega undanþágu. Þá þarf ekkert að vonast eftir því að hér verði ekki lagður sæstrengur vegna þess að þá erum við búin að tryggja með þeirri lögformlegu leið að það muni ekki gerast vegna þess að þá erum við ekki undir þessu regluverki, þriðja orkupakka, sem virkjast við það að leggja hingað sæstreng.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þessi partur álitsgerðarinnar er mjög mikilvægur og á að vera skilaboð til stjórnvalda um að þessi leið feli í sér svo mikla óvissu að það hefði aldrei átt að velja hana en það gera (Forseti hringir.) stjórnvöld. Þau velja leið sem er ekki besta leiðin, taka þar af leiðandi mikla áhættu.