149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eftir því sem ég les gögnin betur verður mér alltaf betur og betur ljóst í hvers lags óvissuferð við erum að halda. Stjórnarliðar halda í óvissuferð sem enginn í raun veit hvar endar. Það er ekki búið að rannsaka þessa leið, hún er bara uppástunga í lok álitsgerðarinnar, rétt í lokin. Hún hefur ekkert verið rannsökuð.

Það er hugsanlegt að upp gæti komið samningsbrotamál. Ef einhver vildi leggja sæstreng og fengi höfnun á því gæti hann farið í samningsbrotamál við Ísland og þá gætum við orðið bótaskyld. Þeir gætu farið til ESA með slíkt mál og um það segja þessir lögfræðilegu ráðgjafar ríkisstjórnar að í slíku máli gæti staða Íslands verið erfið. Þeirra orðalag. Slíkt mál gæti reynst Íslandi erfitt.

Er þetta hinn margumtalaða galli á þessari leið, frú forseti? Er hann þarna fundinn? Við erum að bjóða hættunni heim á að það verði höfðað samningsbrotamál á hendur Íslandi. Við yrðum kannski dæmd til að punga út milljónatugum eða milljónahundruðum vegna þess að menn eru ekki með opin augu á Alþingi Íslendinga. Skoða ekki málin nógu vel, hlusta ekki á þá sem benda á þetta, lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar sjálfrar benda á þetta. Við komum hér upp af okkar vanmætti og lesum mörg hundruð blaðsíðna gögn og sjáum þetta smám saman og þetta er að koma í ljós núna frammi fyrir alþjóð.