149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem maður hefur velt fyrir sér töluvert lengi og mikið. Hvað varð til þess að allir þessir þingmenn, sem sögðust hafa fengið kalda fætur fyrst í stað, sneru svona gjörsamlega við blaðinu?

Nú held ég að við séum búin að leiða það fram í þó nokkru máli að þessir svokölluðu lagalegu fyrirvarar eru ekki túkalls virði. Við höfum leitt það fram en enn sitja þessir þingmenn fastir, sérstaklega þeir sem voru í vafa en eru sannfærðir núna. Þeir geta ekki snúið til baka að því er virðist. Þeir geta ekki sæst á þetta og þau rök og þau gögn sem við höfum fært fram og farið yfir virðast ekki nægja til þess að þeir sjái að þeir hafi verið annaðhvort blekktir eða tældir til að styðja þetta mál án þess að vera vissir um að það stæðist lög, stjórnarskrá landsins.

Við erum búin að benda á það nokkrum sinnum að við höfum öll unnið eið að þessari sömu stjórnarskrá. Þess vegna hlýtur maður að vera mjög hugsi yfir því að ef stjórnvöld sem slík, þ.e. ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, eru reiðubúin að fara í leiðangur sem þau eru ekki viss um að standist lög eða stjórnarskrá, hafi lagalegan grundvöll eða standist stjórnarskrá. Maður veltir því fyrir sér á hvaða vegferð meiri hlutinn er og þeir þingmenn sem létu hafa sig í það (Forseti hringir.) að skipta um skoðun og leggjast á árarnar með þessu máli.