149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og hugleiðingarnar. Hann veltir fyrir sér hvað varð til þess að andstaða þingmanna sem höfðu miklar efasemdir um innleiðingu orkutilskipunar Evrópusambandsins, sem við erum að fjalla um, virtist gufa upp og af hverju þeir snerust sem voru í vafa.

Ég vil trúa því, hv. þingmaður, að það sé alltaf hægt að kynna sér málin betur og breyta um skoðun og þó að maður breyti ekki um skoðun geti maður alla vega tekið þá ákvörðun að vilja íhuga málið og, eins og við erum að benda á, fresta málinu. Þó að menn snúist kannski ekki í 180° þá er hægt að segja við sjálfan sig: Það er meira í þessu en ég hélt og ég er tilbúinn að fresta þessu um sinn og skoða þetta betur og fá einhverja ráðgjöf, álitsgerðir um það sem út af stendur og bent hefur verið á, sem er fjölmargt sem hefur komið hér fram.

Það er frumskilyrði í svo mikilvægu máli eins og þetta er sem varðar eina helstu auðlind og auðsuppsprettu þjóðarinnar sem eru fallvötnin og orkan frá þeim sem við getum nýtt okkur. Þetta varðar framtíð óborinna kynslóða Íslendinga. Þess þá heldur eiga menn að taka sér tíma og íhuga málið og ef þeir eru í einhverjum vafa er betra að taka smáhlé og skoða málið gaumgæfilega áður en þeir taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir. Ég ber þá von í brjósti að menn séu opnir og hlusti á umræðurnar og kynni sér nýtt sem kemur fram í málinu. Ég ber von til þess.