149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Svo ég haldi aðeins áfram að spinna þann þráð sem hér var sleginn finnst mér svo afdrifaríkt að taka ákvarðanir sem menn eiga að vita að ekki sé hægt að taka til baka. Þess vegna hefði maður haldið að menn vildu vera algjörlega vissir.

Eins og allir vita virðist vera viss ótti hjá stjórnarliðinu um að beita 102. gr. Það vill þannig til að ég er hérna með tilvitnun í mastersritgerð í lögum eftir Ara Hólm Ketilsson, það er reyndar stutt tilvitnun, þar sem hann talar einmitt um beitingu 102. gr. Það kann að vera að þessi upptalning valdi því hvað menn eru með kaldar lappir í því máli. Hér segir, með leyfi forseta:

„Tvisvar hefur það gerst að framkvæmdastjórn ESB hefur beitt 4. mgr. 102. gr. þegar EFTA-ríkin höfðu ekki tekið upp gerðir í samninginn, annars vegar vegna tilskipunar 2001/98/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og hins vegar vegna tilskipunar 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Í 4–6. mgr. 102. gr. er ferlinu lýst. 4. mgr. 102. gr. segir að ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðaukum samningsins skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla þá möguleika sem í boði eru til að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins og taka nauðsynlegar ákvarðanir þar að lútandi. Taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils. Hafi nefndin hins vegar ekki komist að niðurstöðu innan frestsins sem lýst er í 4. mgr. notast samningsaðilar við reglu 5. mgr. 102. gr. Þá skal litið svo á að framkvæmd viðkomandi viðauka samningsins sé frestað tímabundið, nema sameiginlega EES-nefndin ákveði annað. Slíkur frestur tekur gildi sex mánuðum eftir að tímafrestinum í 4. mgr. er lokið, þó ekki áður en viðkomandi gerð kemur til framkvæmda innan ESB. Vinna skal áfram að lausn málsins til þess að aflétta frestuninni við fyrsta tækifæri. Aðilum er þrátt fyrir þetta skylt samkvæmt 6. mgr. 102. gr. að ræða saman um þær afleiðingar sem slík frestun hefur í för með sér innan sameiginlegu EES-nefndarinnar og koma sér saman um hvaða breytingar sé nauðsynlegt að ráðast í vegna frestunarinnar.

Er það í höndum sameiginlegu EES-nefndarinnar að meta það til hvaða viðauka samningsins hin nýja löggjöf tekur, samanber 2. mgr. 102. gr. Ef 2. og 5. mgr. eru lesnar samhliða má sjá að ekki er frestað framkvæmd alls viðaukans sem gerðin á við heldur aðeins þeim hluta hans sem hin nýja löggjöf tekur beint til. Sameiginlega EES-nefndin leggur yfirleitt ekki mat á gildissvið gerðarinnar fyrr en eftir að viðkomandi gerð hefur verið samþykkt innan ESB. Alls óvíst er að samningsaðilar muni geta sammælst um að fresta framkvæmd ákveðins hluta samningsins. Komi til frestunar á hluta samningsins er það ekki þannig að það sé látið kyrrt liggja. 5. mgr. 102. gr. segir að aðilar skulu leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem allir geta sætt sig við.

Hvað felur slík frestun þá í sér? Í 6. mgr. 102. gr. kemur fram að réttindi og skyldur sem einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri hafa áunnið sér haldast þrátt fyrir frestun samningsins. Er það til þess að tryggja að ekki verði til ný réttindi byggð á þeim hluta samningsins sem hefur verið frestað. Ljóst er að með frestun á framkvæmd EES-samningsins að hluta til verða í gildi mismunandi reglur innan EES-svæðisins, þær reglur sem myndu gilda innan ESB væru ekki gildar innan EFTA-ríkjanna og öfugt. Myndi sú staða brjóta gegn 1. gr. EES-samningsins og er því ljóst að aðilar samningsins munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ekki komi til frestunar á framkvæmd samningsins.

Ljóst er að hagsmunir samningsaðila eru þeir að ekki komi til frestunar á framkvæmd samningsins. Ólíklegt er því að til þess komi, má benda á áðurnefnd dæmi þar sem framkvæmdastjórn ESB hóf ferlið til frestunar á framkvæmd samningsins en fylgdi því ekki eftir svo að ekki kom til þess að fresta þyrfti framkvæmd EES-samningsins. ESB beitti EFTA-ríkin þannig þrýstingi til þess að taka viðkomandi gerðir upp í EES-samninginn með því að hóta að fresta framkvæmd hans. Hagsmunir ESB voru þó þeir að ekki kæmi til frestunar þó svo að uppgefnir tímafrestir hefðu verið liðnir. Sýnir þetta því að aðilar samningsins eru tilbúnir að ganga ansi langt áður en til þess kemur að fresta framkvæmd samningsins þar sem það tryggir ekki hagsmuni þeirra. Hins vegar má velta upp þeirri spurningu hvort þessar reglur séu heppilegar í núverandi mynd. Ef tilgangur þeirra er sá að halda aðilum við samningaborðið þá hafa þær náð því þegar þeim hefur verið beitt.“