149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þennan mikla og hraða lestur. Þarna var býsna hratt farið yfir stórt mál. (ÞorS: Naumt skammtaður tími.)

Nú kann að vera að þingmaðurinn hafi rétt fyrir sér með að þetta hafi haft einhver áhrif, en það breytir því þó ekki að inn í samninginn eru skrifaðar ákveðnar leikreglur og þær leikreglur gera ráð fyrir að þær séu nýttar, þær eru ekki bara upp á punt. Þannig virka ekki svona samningar.

Það er hins vegar kannski betri lausn, þó að það sé hin rétta lögfræðilega leið að vísa þessu máli aftur til EES-nefndarinnar, að viðurkenna hreinlega fyrir aðilunum við borðið að þetta mál fær ekki það fylgi og þá hylli sem menn áttu von á þjóðþinginu og hvað þá úti í samfélaginu, sem er ekki síður mikilvægt. Því sé rétt að rannsaka það og skoða það betur. Maður veltir fyrir sér hvort það séu ekki hagsmunir Evrópusambandsins að veita, ég segi ekki óendanlegan, en mjög langan frest til að taka þetta upp og ekki síst í ljósi þess að þeirra vagn heldur áfram eftir teinunum. Nú erum við komin með fjórða orkupakkann eins og hefur verið minnst á hér nokkrum sinnum.

Að mínu viti ætti að vera tækifæri til að skoða málið nánar. Það eru komnar fram nýjar upplýsingar, eitt stykki fjórði orkupakki, svo dæmi sé tekið, líka þær upplýsingar sem komu í dag varðandi fjárfesta í Bretlandi. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki ráð að hægja aðeins á og skoða allar hliðar þessa máls?