149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérstakt að hafa nokkrar leiðir til þess að ná sátt um þetta mál en enginn vilji virðist vera til þess. Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af og langar kannski að biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér líka er að við virðumst vera á þeim vagni núna að reyna að klára þetta mál, eins og þingmaðurinn lýsti, sama hvað á dynur, burt séð frá því að allar þær ákvarðanir sem nú verða teknar munu fylgja okkur inn í næsta áfanga í þessu ferli öllu, alveg eins og það sem samþykkt var í orkupakka tvö eða annarri raforkutilskipuninni fylgir okkur núna inn í orkupakka þrjú.

Þetta er samfella sem miðar að einu. Við verðum að horfa á þessa samfellu sem eina heild. Þess vegna er mikilvægt að menn horfi ekki t.d. á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem eitthvert hlaðborð af greinum sem maður geti bara tekið út úr. Samningurinn er ein samfella og greinarnar í honum, hvort sem þær eru lítið notaðar eða mikið notaðar. Þess vegna verður að horfa á þetta mál alveg eins að mínu viti. Þetta er ein samfella, allir þessir orkupakkar og við getum ekki tekið út einn pakka og sagt, þegar við erum búin að innleiða obbann af þessu: Við erum hætt við þennan. Við getum ekki gert það. Við viljum ekki taka þetta upp. Þetta voru mistök. Eða þá þegar við komum að orkupakka fjögur eða fimm eða hvað þeir eru margir, að segja. Nú ætlum við ekki að innleiða meir. Þá erum við komin að endanum á pylsunni sem er búið að vera að láta okkur bíta af allan tímann.