149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að vitna í eina af umsögnunum um þingsályktunartillöguna. Hér er ég með bók, innbundna, sem hefur að geyma allar umsagnir við tillöguna. Til gamans má geta þess að ég heyrði það í útvarpi að ég hafi stigið í pontu með einhverja gamla skruddu. Það er þessi bók hér. Þið sjáið hvernig fréttaflutningurinn er misjafn af þessum ræðuhöldum í þinginu. Þetta er mjög mikilvæg bók, þetta eru allar umsagnir við þingsályktunartillöguna.

Ég er hér með umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem er oft á tíðum nefndur faðir EES-samningsins og einn af okkar helstu sérfræðingum hvað hann varðar. Hann spyr, með leyfi forseta:

„Mun höfnun á lögleiðingu orkupakka 3 […] setja EES-samninginn í uppnám? Stutta svarið við því er nei.“

Síðan talar hann um réttinn til að hafna þessari innleiðingu og fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina, og segir:

„Þessi ótvíræði réttur aðildarríkja EES-samningsins til þess að hafna innleiðingu löggjafar út frá eigin þjóðarhagsmunum, án viðurlaga, var frá upphafi ein meginröksemdin fyrir því, að framsal valds samkvæmt samningnum væri innan marka þess sem samrýmdist óbreyttri stjórnarskrá.“

Ef einhver er vafinn getum við alltaf hafnað. Mig langar að spyrja hv. þingmanni í þessu samhengi: Finnst honum það ekki einkennilegt að ekki skuli vera hlustað t.d. á fyrrverandi utanríkisráðherra, sem er nefndur eiginlega faðir samningsins og ætti að þekkja þetta manna best?