149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eitt er að hlusta ekki á allt þetta fólk sem ég taldi upp áðan og eins og hv. þingmaður benti á, fyrrum utanríkisráðherra Íslands og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, annað er að hlusta ekki á þjóðina, en 62% hennar er á móti þessum samningi. Þegar við leggjum það saman að 62% þjóðarinnar eru á móti samningnum og að margir þeir sem komu að þessum samningi vara við þessari málsmeðferð og að 70% af þeim umsögnum sem voru sendar inn varðandi þetta mál voru neikvæðar, þar á meðal frá a.m.k. þremur eða fjórum lögmönnum, er eins og menn horfi fram hjá því. Það er eins og menn hafi handvalið. Menn völdu að taka einn lögmann sem var jákvæðari og annan sem var svipað jákvæður og hlustuðu á þá. Það voru tveir sem voru mjög varkárir og þeir voru það varkárir að þeir voru beðnir um að bæta aðeins í, án þess að ég ætli að gera lítið úr þeirra fræðimannsheiðri. Það er hamrað á því að þeir hafi sagt þetta og hitt, sem er þó mjög umdeilt og er búið að færa rök fyrir því, bæði af okkur sem hér stöndum og fleirum, að vissulega hefðu þeir valið þann kost að senda þetta til sameiginlegu nefndarinnar. Síðan eru kannski aðrir tveir sem eru eindregnari í því að senda þetta til sameiginlegu nefndarinnar. Á þá var ekki hlustað.

Ég talaði um þetta við utanríkisráðherra um daginn og nefndi Eyjólf Ármannsson. Það var nánast eins og hæstv. utanríkisráðherra vildi gera lítið úr þeim manni og sagði: Við notuðum álit færustu sérfræðinga. Þar með gerði hann lítið úr þessum ágæta manni sem færði fram mjög góð rök (Forseti hringir.) og ég hef notað hans greinargerð nokkuð mikið og mun halda áfram að nota hana því ég er ekki (Forseti hringir.) næstum því búinn að lesa úr henni allt það gagn sem hægt er að fá þar fram.