149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég sé að klukkan er líklega eitthvað að stríða okkur. Þetta er betra. Þakka þér fyrir, hæstv. forseti.

Ég vil byrja á því að taka fram að ég er meðvitaður um að ég er búinn að lofa ræðum um allmarga þætti þessa máls sem mér hefur ekki enn unnist tími til að flytja. Þó vil ég bregða aðeins út af prógramminu hvað það varðar vegna þess að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi nokkuð áðan sem ég held að sé mjög mikilvægt að við tökum fyrir í þessari umræðu, nokkuð sem í rauninni hefði átt að vera partur af skoðun eða nálgun ríkisstjórnarinnar að þessari innleiðingu en hefur verið nefnt mjög takmarkað. Það er samspil regluverks Evrópusambandsins við annað regluverk, þ.e. að menn taki tillit til þess að með innleiðingu orkupakkans og þess regluverks sem undir hann heyrir er um leið verið að hafa áhrif á túlkun ýmissa annarra reglna sem sambandið hefur þegar innleitt.

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason nefndi sérstaklega samspil við samkeppnisreglur. Ég held að það sé ekki úr vegi, enda höfum við þegar mjög skýrt dæmi um það í tilviki kjötmálsins svokallaða hvernig samkeppnisreglur almennt hjá Evrópusambandinu voru notaðar til að túlka reglur um allt annað, nokkuð sem við Íslendingar töldum okkur hafa skýra undanþágu frá, þ.e. um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál.

Það er orðið tímabært í þessari umræðu að velta aðeins upp þessum gríðarlega mikilvæga þætti því að með innleiðingu þriðja orkupakkans erum við ekki bara að taka við öllu regluverkinu sem varðar orkumál heldur má ætla að það regluverk verði sett í samhengi við annað regluverk Evrópusambandsins, ekki hvað síst á sviði samkeppnismála.

Nú er Evrópuréttur þess eðlis, og við sjáum það af fjölmörgum dómum, að hann er mjög markmiðsmiðaður. Það er litið til markmiðanna ekki síður en til hins formlega lagatexta, reglugerðanna sjálfra. Þetta er auðvitað eitthvað sem hefur verið rætt í Bandaríkjunum til að mynda, af hæstarétti Bandaríkjanna, um árhundruð, hvort eigi að vega þyngra, markmiðin með lagasetningunni eða laganna hljóðan. Þetta er hins vegar ekki álitaefni í Evrópurétti þar sem markmiðin vega jafnan mun þyngra en laganna hljóðan ef það skarast eitthvað.

Við munum eftir þessu úr Icesave-deilunni þar sem málflutningur Evrópusambandsins og Breta og Hollendinga snerist að miklu leyti um það hver væru meginmarkmiðin með regluverkinu fremur en það sem stæði í lögunum sjálfum, því þau voru skýr og réttur Íslands þar mjög ótvíræður. Sem betur fer féllst EFTA-dómstóllinn á að það bæri að líta til laganna fyrst og fremst. En það er engu að síður gegnumgangandi í Evrópuregluverkinu að litið er mjög til þeirra meginmarkmiða sem Evrópusambandið setur fram.

Nú trúi ég því varla, herra forseti, að tíminn sé að klárast, því að ég er rétt að byrja á inngangi að þessum mikilvæga þætti málsins. En fyrst mér er svo naumt skammtaður tíminn vil ég segja rétt í lokin að þetta atriði, sem ég er rétt að byrja að fjalla um, er enn ein áminning þess að við þurfum að líta á það sem felst í fjórða orkupakkanum því að það hefur heilmikið skýringargildi varðandi meginmarkmið Evrópusambandsins með innleiðingu þriðja orkupakkans.