149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Mótmæli franskra þingmanna eru mjög áhugaverð í þessu sambandi en ég myndi þá bæta því við að það er líka áhugavert að sjá viðbrögð frönsku verkalýðshreyfingarinnar við þessari þróun. Þar hafa menn séð ástæðu til þess að mótmæla sérstaklega kröfu Evrópusambandsins um að nýting orkuréttinda, í því tilviki held ég vatnsaflsvirkjunar, nýting virkjunarréttindanna, skuli fara í útboð. Þetta er virkjun sem ríkisorkufyrirtækið hefur frá upphafi rekið en nú ætlast Evrópusambandið til þess að sá nýtingarréttur sé boðinn út.

Svo láta menn eins og við séum að fara með tómt fleipur þegar við vekjum athygli á þeirri hættu sem hinu íslenska fyrirkomulagi orkumála stafar af þriðja orkupakkanum. Við erum með algjöra sérstöðu hvað varðar opinbert eignarhald á orkuframleiðslu hér á landi, til viðbótar við sérstöðuna sem felst í því hversu umhverfisvæn íslenska orkan er.

Til að bæta við þetta og athugasemd hv. þingmanns myndi ég vilja nefna þær athugasemdir sem Mervyn King, fyrrverandi seðlabankastjóri Englandsbanka, kom með um evruna og samrunaferli sem tengist henni. Hann benti á að til að þessi gjaldmiðill gæti gengið upp þyrfti að innleiða pólitíska einingu, þ.e. pólitískt vald þyrfti að þjappast saman á einn stað. Ég er dálítið hræddur um að Evrópusambandið líti svo á að það sama eigi við um orkumálin, að til þess að þetta kerfi gangi upp þurfi það að þjappa saman pólitísku valdi í orkumálunum.