149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu. Það var afskaplega áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á, að horfa á heildarmyndina. Það er það sem skiptir öllu máli í þessu. Því miður er það svo að ríkisstjórnin og þeir sem styðja þessa tillögu horfa einmitt ekki á heildarmyndina, horfa ekki fram í tímann eins og gera ber. Þjóðir eins og Kínverjar horfa 100–200 ár fram í tímann. Hér á Íslandi er tilhneiging til þess, a.m.k. af hálfu þessarar ríkisstjórnar, að horfa ekki fram í tímann.

Ef við horfum á heildarmyndina er það náttúrlega loftslagsváin og þær miklu breytingar sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum. Í Evrópu glíma menn við þann vanda að þar er mikið af orkunni til komið vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Aðstæður í Evrópu eru allt aðrar en hér, við sjáum það hvað varðar raforkuverðið sem slíkt og það er skortur á raforku í Evrópusambandinu, en hér höfum við nóga raforku, hér er verðið stöðugt. Það er óstöðugt í Evrópu. Aðstæðurnar eru allt öðruvísi en engu að síður er verið að fara í þessa vegferð, að við séum þátttakendur í þessu.

Maður spyr sig: Er hættan ekki sú að við sogumst inn í þetta óstöðuga kerfi? Fyrir vikið komum við til með að þurfa að selja okkar hreinu orku til að mæta (Forseti hringir.) þeirri þörf sem er í Evrópu.

Mig langaði kannski að fá það fram hjá hv. þingmanni í þessu sambandi hvort það sé ekki skammsýni að sjá ekki heildarmyndina, (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og hv. þingmaður var að lýsa.