149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það eina varanlega lausnin. En þegar maður horfir á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli og hvernig hún nálgast það yfir höfuð verður manni hugsað til frægrar tilvitnunar í John Lennon sem sagði eitthvað á þá leið: Lífið er það sem gerist á meðan maður er upptekinn við að gera önnur plön. En það fellur þó ekki alveg að ríkisstjórn Íslands, þyrfti líklega að aðlaga með því að segja eitthvað á borð við: Lífið er það sem gerist meðan maður er upptekinn við að fresta málunum. Þannig hefur þessi stjórn nálgast málin, jafnvel þegar fyrir hendi eru upplýsingar um hvers er að vænta og fyrir hendi er lausn sem er útlistuð með skýrum hætti í EES-samningnum, ekki sem einhvers konar neyðarhemill heldur atriði sem á að undirstrika það að þessi samningur sé fyrir þjóðir til að vinna saman á jafnréttisgrundvelli. Telji einhver á sig hallað eða að samningurinn vinni ekki með hagsmunum tiltekinnar þjóðar hafi menn þann kost í stöðunni að fara í sáttaferlið svokallaða og leita að lausn sem hentar öllum.

Það að menn skuli ekki nýta sér þennan möguleika er að mínu mati óskiljanlegt. Það rifjar upp söguna um tjakkinn sem margir þekkja. Ríkisstjórnin sem er á bíl með sprungið dekk virðist vera búin að sannfæra sig um að bóndinn muni örugglega ekki lána sér tjakkinn og skammast þess vegna út í bóndann sem hún er ekki einu sinni búin að hitta til að biðja um tjakkinn.