149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu minni langar mig aðeins að rifja upp hvernig málum var háttað í Evrópu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, hver þróunin hefur orðið og á hvaða vegferð Evrópusambandið er í orkumálum. Í þriðja orkupakkanum, tilskipun Evrópusambandsins, er tekið fram að stjórnvöldum einstakra ríkja sem tilheyra innri orkumarkaði Evrópusambandsins sé óheimilt að standa í vegi fyrir tengingum milli landa. Evrópusambandið ákvað sem sagt árið 2007 að leggja aukna áherslu á tengingu milli landa og stofna þessa vegna Orkustofnun Evrópusambandsins sem er þessi ACER-stofnun sem hefur verið nefnd hér oftar en einu sinni. Það er gert með reglugerðum árið 2009 sem kallast þriðji orkupakkinn og síðan er skerpt á því með reglugerð sem er hluti af fjórða orkupakkanum frá 2013.

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar stóð Evrópusambandið frammi fyrir krefjandi verkefnum þegar ríki Austur-Evrópu byrjuðu að ganga í ríkjasamband Evrópusambandsins. Þessi ríki voru meira og minna með alla innviði í rúst, við þekkjum það, þar á meðal raforkumál sín, hvort sem það var framleiðsla eða dreifing. Ekkert af þessu átti við um Ísland sem hafði þróað sín raforkumál með miklum ágætum eins og við þekkjum, allar götur frá 1936 þegar virkjanir við Sogið voru teknar í notkun.

Allar raforkutilskipanir Evrópusambandsins tóku því í byrjun mið af hinum vanþróuðu raforkumörkuðum sem einkum mátti rekja til Austur-Evrópulandanna en hafa hin síðari ár færst yfir í fyrirsjáanlegan raforkuskort í Vestur-Evrópu, einkum og sér í lagi vegna kröfunnar um vistvæna raforkuframleiðslu sem tengist loftslagsmálunum og aðgerðum gegn þeim. Enginn þessara þátta á við um íslenska raforkumarkaðinn, enda hafa þessar tilskipanir aldrei gert neitt fyrir íslenska neytendur annað en að auka skriffinnsku og kostnað.

Við þekkjum það að raforkuverð hefur hækkað hér við þessar tilskipanir. Við Miðflokksmenn erum búin að sýna hér að raforkuverð hækkaði um tugi prósenta í ákveðnum tilfellum og búin að hrekja staðreyndir stjórnarliða þess efnis að raforkuverð hafi ekki hækkað. Síðan er rætt um að neytendavernd sé svo mikilvæg en við erum búin að sýna fram á að það er nokkurs konar gervisamkeppni í þeim efnum og hún hefur sáralitlu skilað fyrir okkur. Hér hefur verið hamrað á því af þingmönnum, bæði stjórnarliðum og þingmönnum sem styðja þetta mál úr öðrum flokkum, eins og Samfylkingunni og Viðreisn, að neytendaverndin hafi skipt sköpum, það hafi verið hægt að lækka rafmagnsreikningana um háar fjárhæðir á ári. Það er rangur málflutningur. Neytendasamtökin létu gera tilboð fyrir umbjóðendur sína í því augnamiði að reyna að lækka verulega rafmagnsreikninginn. Einn aðili gerði tilboð og það svaraði ekki kostnaði að færa sig yfir því að lækkunin var svo óveruleg, eitthvað um 0,6%. (Forseti hringir.)

Ég sé að tíminn er liðinn, frú forseti. Ég þarf að ljúka þessu í næstu ræðu og bið forseta vinsamlega að setja mig aftur á mælendaskrá.