149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var afskaplega áhugaverður nýr vinkill á þetta mál, að fara yfir söguna og áhuga Evrópusambandsins á sameiginlegri stefnu í orkumálum. Höfum í huga að orkumál voru ekki þáttur í EES-samningnum þegar við gerðum hann, að vísu er getið stuttlega um orkumál í 141. gr. viðauka samningsins, ef ég man rétt, og það hefur einmitt verið notað sem rökstuðningur fyrir því að við ættum ekki að vera undir þessa sameiginlegu orkustefnu seld þó að eitt og annað hafi gerst í millitíðinni, m.a. með innleiðingu á fyrstu og annarri raforkutilskipuninni.

Það sem hv. þingmaður rakti er einmitt góð áminning um að oft og tíðum þróast hlutirnir og markmiðin færast frá því sem upphaflega var lagt upp með. Til að mynda var Evrópusambandið sjálft stofnað sem stál- og kolabandalag Evrópu 1956, ef ég man rétt, svoleiðis að það hefur auðvitað breyst í eðli sínu til mikilla muna. Þess vegna þurfum við að líta til markmiðanna eins og þau birtast nú, en þó með þeim fyrirvara og með það í huga að markmiðin geti þróast og breyst, en þá sé þeim mun mikilvægara að vera ekki of bundin sambandinu þannig að það geti ákveðið í hvaða átt það tekur okkur sem samfélag þegar markmið þess breytast. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála mér um þetta?