149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er feginn að heyra að hv. þingmaður skuli vera sammála mér um þetta. En það var annað í ræðu hv. þingmanns sem mig langar að spyrja hann sérstaklega út í. Það er reyndar atriði sem hefur komið áður til umræðu, en það er einmitt ástæðan fyrir því að ég ætla að spyrja út í þetta, að það hefur verið nefnt áður, og ég vil vita hver staðan er á því núna. Það varðar þróun verðlags.

Hv. þingmaður var, held ég að mér sé óhætt að segja, fyrstur manna til að leiða það fram í þessari umræðu með staðreyndum á blaði að orkuverð hefði hækkað til mikilla muna á Íslandi með innleiðingu á fyrri raforkutilskipunum Evrópusambandsins. Það má reyndar geta þess í því samhengi að spáð hafði verið fyrir um þessa hækkun þegar innleiðing átti sér stað 2002 eða 2003. Meðal þeirra sem vöruðu við þessu eindregið var Björn Bjarnason, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og raunar aðrir þingmenn flokksins og fleiri flokka. En þegar hv. þm. Birgir Þórarinsson benti á tölur þessu til staðfestingar, að þetta hefði orðið raunin, var hann sakaður um að fara með rangt mál. Hann var sakaður um að halda fram rangfærslum og leitast við að blekkja fólk.

Nú spyr ég hv. þingmann: Hefur hann fengið leiðréttingu frá stjórnarliðum? Hefur hann jafnvel fengið afsökunarbeiðni vegna þeirrar framgöngu að saka hv. þingmann um ósannindi í þessu máli? Ég spyr í ljósi þess að hv. þingmaður er búinn að sýna fram á þetta með tölum á blaði.