149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þarna hafi hv. þingmaður komið inn á mjög mikilvægan þátt. Auðvitað þarf að kynna orkupakka fjögur í samræmi við orkupakka þrjú vegna þess að þetta er, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni fyrr í kvöld, samfella sem heldur áfram. Það að halda því fram að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af orkupakka fjögur þó svo að við séum búin að samþykkja orkupakka þrjú eru náttúrlega rök sem standast engan veginn. Þetta fer allt að sama markinu sem er sameiginlegi markaðurinn og að við verðum þátttakendur í honum.

Orkupakki fjögur, ef ég skil hann rétt, snýr meira að hreinni orku, orkuskiptunum og öllu því sem varðar baráttuna við loftslagsmálin sem eru náttúrlega Evrópusambandinu mjög mikilvæg. Að því leytinu til er algjörlega fyrirsjáanlegt að orkupakki fjögur kemur til með að valda verðhækkunum á raforku hér á landi. Þá verður væntanlega kominn hér sæstrengur og þá verður þessi hreina orka algjör forgangsorka í augum Evrópusambandsins og það mun örugglega greiða hátt verð fyrir orkuna. En það sem er kannski verst í þessu er að forráðin eru þá komin yfir á orkustofnun Evrópusambandsins sem mun hafa um það að segja með hvaða hætti orkan er verðlögð og hversu mikið við flytjum út af henni.

Ég held að það sé alveg óhætt að lesa það úr þeim gögnum sem við höfum að þetta tengist, þetta eru ófrávíkjanleg tengsl (Forseti hringir.) milli orkupakka þrjú og fjögur sem mun auka eftirspurn eftir hreinni raforku frá Íslandi. Það þýðir náttúrlega að orkuverð mun hækka á Íslandi, hækka til heimila og fyrirtækja í landinu.