149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EFS-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er rétt hjá honum að hér eru aðstæður allt aðrar og samkeppnisumhverfið með allt öðrum hætti. Og í raun og veru er á þessum markaði gervisamkeppni, ef má orða það svo, sem kristallast í þessari svokölluðu neytendavernd sem stjórnarliðar hafa haldið fram að sé svo ægilega mikilvæg. Það kemur bara í ljós að hún er nánast engin og það að skipta um orkusala eins og ég nefndi áðan svarar ekki kostnaði. Samkeppnisumhverfið hér er allt annað. Þegar við erum komin inn á þennan sameiginlega markað með Evrópusambandinu með innleiðingu þessa orkupakka og síðan sæstrengs í framhaldinu þurfum við að fara að keppa um raforkuverð á sameiginlegum markaði við heimili og fyrirtæki Evrópu þannig að það mun augljóslega leiða til hækkunar raforkuverðs hér.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega og kom inn á mjög mikilvægan punkt sem er kostnaður vegna húsbygginga og breytinga á byggingarreglugerð o.s.frv. Það þarfnast mjög mikilvægrar athugunar og rannsókna í raun og veru að skoða áhrifin. Þetta liggur ekki fyrir. Eitt af þeim málum sem er algjörlega vanreifað í sambandi við þessa tilskipun og innleiðingu hennar er að gera athugun á áhrifum þessarar tilskipunar á t.d. byggingarmarkaðinn í landinu. Byggingarregluverkið hér er nógu flókið og það er talað um að það tefji fyrir framkvæmdum o.s.frv. á tímum þegar skortur er á húsnæði. Auðvitað á að gera nákvæma athugun á þessum hluta. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á mikilvægi þess.