149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég fór áðan í ræðu yfir spurningar sem ég tel mikilvægt að setja í samhengi og svara vegna orkupakka fjögur og heildarmyndarinnar sem er að verða til. Ég lít þannig á að við séum í raun að taka hér skref í að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins. Ekki höfum við eigin orkustefnu, í það minnsta. Spurningarnar sem ég er búinn að velta upp eru t.d. þær sem ég var að spyrja hv. þingmann í andsvörum varðandi orkunýtni bygginga sem breytist frá orkupakka þrjú til fjögur. Fær ACER-stofnunin aukin völd og ef svo er, hver eru þau?

Það sem mig langar núna að velta upp og er líklega ein mikilvægasta spurningin er: Hvað þýðir sú breyting eða uppfærsla sem orkupakki fjögur hefur á fyrri gerðir og orkupakka fyrir stjórnarskrá Íslands? Er um að ræða meira valdframsal? Þurfum við að láta frá okkur meira af stjórn raforkumarkaðarins en er í dag með orkupakka þrjú? Hvar liggur þá hið aukna valdframsal, ef það er? Ef framsal er til staðar kallar það á að stjórnskipuleg álitaefni séu skoðuð sérstaklega varðandi þann þátt? Er þetta eitthvað sem er smávægilegt og skiptir ekki máli? Eða er þetta eitthvað meiri háttar?

Þetta langar mig að tengja við það hvort orkupakki fjögur kalli mögulega líka á að menn afgreiði hann með stjórnskipulegum fyrirvara. Þá hefst aftur sá rúntur sem er hér í þinginu í dag varðandi orkupakka þrjú. Nú er dauðafæri fyrir okkur þingmenn að fá almennilega kynningu á því hvað þessi heildarmynd komi til með að þýða og hvaða áhrif hún hafi til lengri tíma litið á Íslandi. En mér sýnist því miður, virðulegur forseti, að við séum þeir einu sem hafa einhverjar áhyggjur af því að heildarmyndin sé að verða skökk eða varasöm fyrir íslenska hagsmuni, haldi þessi innleiðing óbreytt áfram. Ef niðurstaðan er sú að orkupakki fjögur kalli jafnframt á stjórnskipulegan fyrirvara eins og með orkupakka þrjú væri vert að velta fyrir sér hver áhrifin eru á stjórnarskrána þegar allt er saman komið, þegar samtalan er komin á pakkana alla saman.

Gleymum því ekki að þetta er ekki þannig að maður sé fyrir framan hlaðborð og geti valið að taka orkupakka eitt og sleppa orkupakka tvö og taka fjögur o.s.frv., eða taka orkupakka þrjú og sleppa svo fjögur. Þetta er ekki þannig, þetta virkar ekki þannig. Þetta er ein samfella sem miðar að því að gera orkumarkaðinn einsleitan. Það er alveg ljóst í mínum huga að Evrópusambandið mun einskis svífast til að ná þeim markmiðum sínum. Við eigum í sjálfu sér ekki að leggja stein í götu Evrópusambandsins með að gera það. En við eigum hins vegar að sjálfsögðu að fara fram á það að við séum ekkert partur af því, eyja lengst úti í ballarhafi sem á fátt ef nokkuð skylt með sameiginlegum orkumarkaði. Við sjáum hvernig fer fyrir okkur þegar við treystum því að við höfum fyrirvara við þessar reglur. Við sáum það í kjötmálinu. Það er oft betra heima setið en af stað farið og ég held að það eigi við í þessu máli.