149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er erfitt að svara því hvers vegna menn vilja ekki reyna að komast til botns í stjórnskipulegum álitaefnum nú þegar. Það er ekki eins og þetta sé léttvægt og hægt að ýta á undan sér.

Annað í þessu er að það verður framhald á þessum álitaefnum þegar að næsta pakka kemur. Og þegar við tökum saman álitaefnin eru þau orðin það umfangsmikil að það er algerlega klárt að menn geta ekki sætt sig við það eða samþykkt neitt slíkt. Er það kannski ástæðan fyrir því að menn vilja keyra þetta í gegn núna, menn hafi áttað sig á því? Orkupakki fjögur er búinn að vera í skoðun og rannsókn í systeminu. Menn eru hugsanlega búnir að átta sig á því að álitaefnin eru það alvarleg og stór að það sé betra að taka þetta með smáskammtaaðferðum, með skeiðinni, en að skoða heildarmyndina. Ég veit það ekki en það er ekki útilokað að svo sé.

Það er einnig áhugavert að menn skuli vera tilbúnir að taka þann séns að ýta þessu á undan sér, láta á það reyna og hlusta ekki á varnaðarorðin.

Nú greinir fræðimenn á um sumt í þessu öllu saman. Og kannski er útilokað að allir menn séu sammála og verði sammála um þessa hluti. En ég held að sé mjög mikilvægt að taka ekki sénsinn heldur skoða algerlega ofan í kjölinn hversu alvarleg álitaefnin eru, ekki síst varðandi framhaldið.