149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta skiptir verulegu máli í umræðunni. Það er verið að taka áhættu sem getur reynst okkur dýrkeypt. Þar kemur að því að undirbúningurinn er ekki fullnægjandi og þess vegna kemur það mjög á óvart að ríkisstjórnin vilji ekki fresta þessu máli. Ég get ekki séð að það sé neinn skaði skeður með því. Þess vegna kemur það svo spánskt fyrir sjónir hversu ríka áherslu ríkisstjórnin leggur á að málinu verði hraðað sem mest. Það eru ekki einu sinni gerðar athuganir á áhrifum tilskipunarinnar á atvinnuvegina eða heimilin.

Hér eru álitsgerðir sem við höfum fengið frá Félagi garðyrkjubænda og frá iðnaðinum sem lýsa miklum áhyggjum af þessu. Það er bara látið þar við sitja. Það er engin athugun sett í gang um hvort það sé hægt að gera þetta þannig að þessar greinar komi ekki til með að bíða skaða af. Það er eins og það sé bara formsatriði að fá umsagnir frá aðilum og svo eru þær skráðar og bókaðar og svo er það bara búið. Það er eins og menn hlusti ekki á þær áhyggjur sem koma fram í álitsgerðunum sem segja okkur að þessar atvinnugreinar, eins og t.d. garðyrkjan, geti verið í verulegri hættu ef þetta verður innleitt. Það er eins og menn hafi tiltölulega litlar áhyggjur af því.