149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ein af þeim spurningum sem ég hef skrifað hjá mér og ætla að fara yfir í næstu ræðum er einmitt: Hver eru áætluð áhrif á raforkumarkaðinn á Íslandi vegna innleiðingar á næsta orkupakka? Hvert er framhaldið, ef við förum þá leið sem garðyrkjubændur óttast núna? Er frekar tilefni fyrir þá til að hafa áhyggjur af því sem kemur þar á eftir?

Það er ósköp eðlilegt að allt þetta sé uppi á borðinu og að menn velti fyrir sér áhrifunum. En það er vissulega mjög sérstakt að sjá það sem ég ætla að reyna að kalla, og nota þá frekar fínleg orð um það, sinnuleysi fylgjenda þessa máls þegar kemur að því að svara spurningum sem hafa verið settar fram. Hvað er það sem gerir að verkum að menn eru ekki tilbúnir til að róa þetta ferli aðeins, geyma málið eða vísa því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að sjá þá stóru mynd sem ég er búinn að minnast á nokkrum sinnum?

Þetta er eitt af því sem truflar mann í þessu máli, þ.e. hraðinn á þessu. Í sjálfu sér man ég ekki til þess að nokkur hafi komið í þennan ræðustól og útskýrt fyrir þingmönnum hvers vegna ekki er hægt að gefa aðeins meiri tíma í þetta, ef menn vilja ekki fara með þetta aftur til sameiginlegu nefndarinnar. Auðvitað hefur þetta tekið langan tíma, það er alveg ljóst. Það hefur gert það og ekki að ástæðulausu. En úr því sem komið eru þrír til sex mánuðir bitamunur en ekki fjár.