149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er ekki gott að átta sig á því hvað skýrir þá tregðu að vera ekki með þetta mál betur upplýst og kynnt og með einhvers konar rökræðu um það. Það er lítið gagn í því að senda einhverja predikara úr stjórnarliðinu hringinn í kringum landið til að fara með einhverja rullu um hvað þetta sé æðislegt ef ekki er hægt að gagnrýna eða kafa ofan í það sem er hugsanlega varasamt í þessu líka. Það yrði að vera þannig að sjálfsögðu. Það sem ég er mest rasandi yfir og búinn að segja hérna og held áfram að tönnlast á er að menn skuli ekki vilja nota það tækifæri sem er fyrir framan okkur núna til að sjá heildarmyndina. Viljum við að orkustefna Evrópusambandsins verði okkar orkustefna?

Eyjólfur Ármannsson lögmaður fer aðeins yfir þetta í einu af sínum góðu álitum og niðurstaðan er að mínu viti hárrétt hjá honum og augljós í mínum huga líka. Það eru allt aðrar aðstæður á Íslandi en hjá Evrópusambandinu þegar kemur að orkumálum. Við erum ekkert að deila raforkunni okkar með einhverjum öðrum þjóðum á þeirra forsendum, ekki frekar en fiskimiðunum. Þetta eru auðlindir sem við erum að nýta í okkar þágu. Það yrði kúnstugt ef við ættum að fara að deila öðrum auðlindum með Evrópusambandinu eða einhverjum öðrum. Ég geri ekki greinarmun á Evrópusambandinu eða Ameríkönum eða hreinlega Norðurlöndunum (Forseti hringir.) ef það væri uppi á borðum.