149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er búið að tjalda ýmsu til til að reyna að fegra eða selja þessa mynd alla saman. Hingað var fluttur sérfræðingur erlendis frá, fékk flug og bíl eins og sagt er, til að skila áliti og fjalla um ákveðna hluti. Mér sýndist hann kannski fjalla meira um hluti sem hann er ekki sérfræðingur í, pólitík, en engu að síður er hann býsna snjall einstaklingur og hafði reyndar lýst því yfir fyrir 10, 15, 17, 18 árum kannski, kannski er ekki svo langt síðan, að EES-samningurinn væri yfirþjóðlegur samningur, það væri ekki þannig að Íslendingar gætu verið að pirrast út af stjórnarskrá. Það var löngu komið yfir það.

Ekki veit ég hvort þeir sem fengu þennan ágæta mann til að vinna fyrir sig séu akkúrat sammála þessari skoðun hans. En hvað um það, það er mjög erfitt að henda reiður á hvað vakir fyrir því ágæta fólki sem vill keyra þetta mál áfram. Eftir því sem málið þroskast betur í umræðunni, þeim mun meira lærir maður. Það er einfaldlega þannig. Það koma fram nýjar upplýsingar, fólk fyrir utan þetta hús sem hefur mikinn áhuga á þessu máli og miklar áhyggjur af málinu spáir og spekúlerar í því. Það hefur sökkt sér ofan í þessa hluti og kannski ætti að hlusta aðeins betur á það, fleiri en akkúrat við sem erum að tala hér í nótt.

Það væri forvitnilegt að vita, frú forseti — því að einhvern tímann var kvartað yfir því að þingmenn væru annars staðar en í þingsal á fundartíma — hvort það sé einhver frá öllum flokkum á svæðinu.