149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég staldra líka við það þegar fólk teiknar upp mynd af andstæðingum sínum. Þegar það hefur engin rök í málinu sem um er rætt teiknar það upp mynd af andstæðingum sínum sem einhverjum óæskilegum múg með enga sjálfstæða skoðun sem eltir í blindni einhverja ranghugmynd. Ekkert gæti verið fjær raunveruleikanum en þessi lýsing og hún er eiginlega dapurlegur vitnisburður um það. Ég veit reyndar ekki hvert akademísk menning er að fara á Íslandi þegar háskólamenn koma fram með bábiljur og sleggjudóma af þessari sort. Nú virðist reyndar vera eftirspurn eftir þessu í einhverjum fjölmiðlum. Auðvitað vilja menn í háskólageiranum fá athygli eins og hverjir aðrir og njóta þeirra 15 mínútna sem þeir fá í sólinni hverju sinni. Það er skiljanlegt en er hins vegar frekar lágkúrulegt og það eru ekki akademísk vinnubrögð að sortera fólk með þessum hætti. Ekki það að ég sé að væla eða kvarta. Það sem ég vildi draga fram með þessu er að það er svo erfitt að standa í rökræðum við fólk og við höfum dregið hérna fram rök dag eftir dag og nótt eftir nótt sem sýna fram á að þetta mál sem við erum með í höndunum er vanbúið. Það gæti farið illa í höndunum á okkur en að við séum að hífa sjálf okkur upp sem einhverja bjargvætti í þessu máli er algjörlega fjarri lagi.