149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er líka afar erfitt að eiga í rökræðum við fólk sem mætir ekki í rökræðurnar, sem tekur ekki þátt í að ræða kosti og galla eða leiðir út úr málinu sem er verið að fjalla um eða finna lausnir. Það er ekki gott að reyna að halda uppi slíkum rökræðum en við gefumst að sjálfsögðu ekkert upp á því.

Það sem mig langar aðeins að henda upp við hv. þingmann er það að ég er að velta fyrir mér þeirri ábyrgð sem við stjórnmálamenn höfum á laga- og reglusetningu sem við tökum að okkur. Oft höfum við séð ákveðin slys verða hérna, það hefur þurft að laga mál o.s.frv. Þetta er ekki eitthvað sem við lögum ef við innleiðum orkupakka þrjú með húð og hári sem stefnt er að, hugmyndafræðina, markmiðin, allt þetta, og þá snúum við ekki við. Við hættum ekkert við þetta þegar þetta er komið hingað inn.

Hvað seinni hlutinn af þessu eða orkupakki fjögur ber í skauti sér er smám saman að koma í ljós, það er alveg ljóst, en er það ekki svolítið mikill ábyrgðarhluti, hv. þingmaður, að ætla sér að klára þetta með svo mörgum spurningum ósvöruðum sem við höfum velt upp? Sumar þeirra koma frá okkur, sumar frá almenningi og aðrar eru hreinlega bara upp úr þeim álitum sem skilað var inn og meira að segja frá sérfræðingunum (Forseti hringir.) líka sem hafa fjallað um þetta.