149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mig langar aðeins að koma inn á eitt við hv. þingmann. Það er uppskiptingin á orkufyrirtækjunum á sínum tíma, þ.e. HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta voru mjög afdrifamiklar ákvarðanir sem urðu til þess að Hitaveita Suðurnesja var t.d. einkavædd, fyrirtæki sem sveitarfélögin á Suðurnesjum áttu og byggðu upp og hafði samfélagslegt hlutverk sem skipti verulegu máli. Og eftir að fyrirtækið er einkavætt og svo þegar innleiðing á orkupakka eitt kemur sjá menn hvaða afleiðingar það hafði.

Félagslegi þátturinn felst í að leggja hitaveitu, rafmagn o.s.frv. á staði sem skiptu frá viðskiptalegu sjónarmiði ekki nógu miklu máli fyrir fyrirtækið. En það sem gerist í þessu öllu er það að í raun og veru innleiðum við tilskipun frá Evrópusambandinu þess efnis að skipta þeim orkufyrirtækjum upp sem við þurftum ekki að gera. Við þurftum ekki að gera það. Við gengum lengra en við þurftum að gera og maður veltir því fyrir sér: Hvers vegna fóru íslensk stjórnvöld þá leið?

Það hlýtur bara að vera að uppskiptingin sé alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Það hlýtur að vera eitthvað þarna á bak við, að það sé í raun og veru yfirskin. Getur verið, hv. þingmaður, að þarna hafi verið yfirskin, uppskiptingin hafi í raun og veru verið yfirskin að einkavæðingunni? Hvort það hafi verið í raun og veru ástæðan fyrir því.